top of page

Starfsdagur 18. september 2020

Föstudaginn 18. september síðastliðinn var starfsdagur hjá öllum deildum skólanna.

Á starfsdögum er sérstök áhersla lögð á endurmenntun/símenntun og starfsþróun alls starfsfólks.


Hér má til dæmis lesa skilgreiningu á símenntun og starfsþróun kennara úr skýrslu Mennta- og menningarmálaráðuneytisins frá 2010.

Símenntun og starfsþróun kennara fer fram með ýmsu móti, ekki eingöngu með formlegu námi, þ.e. skilgreint nám skipulagt af viðurkenndum aðila, s.s. framhaldsnám, starfsrannsóknir og endurmenntunarnámskeið (formleg símenntun). Stór hluti símenntunar á sér stað í óformlegu námi, t.d. með þátttöku í ráðstefnum, málþingum, fræðslu- og kennarafundum og leshringjum (óformleg símenntun). Símenntun kennara/starfsmanna fer einnig fram sem formlaust nám, t.a.m. í samtölum við samstarfsmenn, lestri fræðirita, notkun fjölmiðla og netmiðla (formlaus símenntun).


Á föstudaginn hófst dagurinn á tæplega 4 klukkutíma vefnámskeiði í skyndihjálp fyrir allt starfsfólk skólanna. Þetta námskeið er grunnhlutinn í skyndihjálp en við munum svo stefna á námskeið í verklega hlutanum í vetur þar sem við munum fá leiðbeinanda frá Rauða krossinum sem kemur og kennir okkur. Námskeiðið var mjög vel upp sett og skipulagt og var starfsfólkið almennt mjög ánægt með þetta fyrirkomulag. Ég hvet alla til að kynna sér vefnámskeið Rauða krossins https://namskeid.raudikrossinn.is/courses/course-v1:Raudikrossinn+SH101+00/about


Eftir hádegið nýttu kennarar grunnskólans, tímann í teymisfundi þar sem fram fór áframhaldandi skipulag og undirbúningur fyrir nám og kennslu í vetur þar sem megináhersla verður lögð á teymiskennslu, sem og að starfsfólk leikskólans skipulagði áframhaldandi starf á leikskólanum. Þá nýtti starfsfólk tímann einnig í lestur fræðsluefnis og ber þá helst að nefna fræðslu- og kennsluefni um Uppbyggingarstefnuna, ADHD, fjölbreytta kennsluhætti og kennsluhugmyndir svo eitthvað sé nefnt. Þá nýttu skólaliðar tímann einnig í endurskipulag á kennslurýmum svo hægt sé að nýta húsnæðið okkar sem best.


Á starfsdögum fer fram fjölbreytt og mikilvæg undirbúningsvinna og endurmenntun sem stuðlar að því að bæta og þróa skólastarfið okkar.

Nýlegar fréttir
Flokkun
Fylgdu okkur
  • Facebook Basic Square
  • Twitter Basic Square
  • Google+ Basic Square
bottom of page