List fyrir alla
Við í Bíldudalsskóla vorum svo heppin að fá að vera fyrsti grunnskólinn á Íslandi sem fékk listakonurnar Tine Louise Kortemand og Maríu Lilju Þrastardóttur í heimsókn til okkar á vegum verkefnisins List fyrir alla. Verkefnið þeirra heitir Nýjar norrænar hefðir – New Nordic rituals og er upprunnið frá Danmörku. Verkefnið byggist upp á samspili ólíkra þátta innan listarinnar, sirkus, gjörningalistar, tónlistar auk kvikmyndalistar.
Listasmiðjan er innblásin af fornum Norrænum hefðum og er hluti af mun stærra listaverki sem kemur til með að flakka á milli landa og listviðburða næstu ár. Nemendur unnu saman í hópum með íslensk orð og við grímugerð. Við lok vinnusmiðjunnar tóku allir þátt í einskonar karnivali. Eftir daginn verður þannig til ný Norræn hefð sköpuð af þátttakendum.
Við í Bíldudalsskóla erum mjög þakklát fyrir verkefni eins og List fyrir alla sem hefur það að markmiði að miðla listviðburðum um land allt og jafna þannig aðgengi barna á grunnskólaaldri að fjölbreyttum og vönduðum listviðburðum óháð búsetu. Þannig kynnast nemendur okkar fjölbreytileika listanna, íslenskum menningararfi og list frá ólíkum menningarheimum.
Takk fyrir okkur.