top of page
UPPBYGGINGARSTEFNAN

​Í Bíldudalsskóla er unnið eftir hugmyndafræði sem nefnist Uppbyggingarstefna (e. restitution). Uppbyggingarstefnan kemur upphaflega frá Kanada og er höfundur hennar Diane Gossen sem hefur gefið út mikið kennsluefni um stefnuna og haldið námskeið víða um heiminn, meðal annars á Íslandi.

Hugmyndafræði stefnunnar felst bæði í aðferð og stefnumörkun skóla til betri samskipta þar sem megin atriðið er að kenna börnum og starfsfólki sjálfsaga, sjálfstjórn og styrkingu sjálfsaga. Uppbyggingarstefnan leggur áherslu á lífsgildi og ábyrgð frekar en reglur og blinda hlýðni. Í stefnunni er gerð krafa á starfsfólk að það þekki þarfir sínar og sameinist um lífsgildi. Hún miðast einnig við að unnið sé með sameiginleg lífsgildi, jákvæðan aga og litið er á mistök þannig að þau séu til að læra af þeim. Uppbyggingarstefnan er viðamikil og tekur til allra þátta í daglegu starfi leikskólans þar sem mest er unnið með grunnþarfirnar, jákvæð samskipti, lífsgildi og sjálfsstjórn.

Hugmyndafræði stefnunnar gengur út á það að öll börn séu í eðli sínu góð og vilji haga sér vel. Hins vegar fæðast börn ekki með þann hæfileika að geta metið hvaða áhrif hegðun þeirra hefur á aðra. Það er því hlutverk starfsfólks leikskóla að kenna börnum þann skilning í gegnum samskipti þeirra við aðra. Því eru fullorðnir mikilvæg fyrirmynd í lífi barna, það sem þeir gera og það sem þeir segja.

 

Uppbyggingarstefnan byggir á:

  •  Jákvæðum og uppbyggjandi samskiptum og gagnkvæmri virðingu 

  • Ábyrgð hvers og eins á eigin hegðun (getum stjórnað okkur, ekki öðrum)

  • Að það er í lagi að gera mistök en mikilvægt að læra af þeim

  • Að finna leiðir til að uppfylla þarfir sínar á jákvæðan hátt án þess að það komi niður á öðrum sem eru í kringum mann

 

Uppbyggingarstefnan hjálpar til við að:

  • Skilja eigin hegðun

  • Læra að jafna ágreining

  • Leiðrétta eigin mistök og læra af þeim

  • Sættast við aðra 

  • Komast fljótt í jafnvægi eftir að hafa misst stjórn á sér

Þarfirnar

Samkvæmt Uppbyggingarstefnunni eru grunnþarfirnar fimm og er hver þörf skilgreind út frá því sem einkennir hana. Flestir hafa fleiri en eina ríkjandi þörf og það hafa börnin líka, þótt ung séu. Öll hegðun hefur tilgang en þegar við þekkjum þarfir okkar leitum við leiða til að uppfylla þær sem best án þess að ganga á þarfir annarra.

 

Öryggi 

Tengist líkamlegum þörfum sem allir hafa og þurfa að fá uppfyllta að einhverju leyti til að dafna í lífinu (húsaskjól, fæði, fatnaður, heilsa, fjölskylda eða hvað annað sem veitir öryggi). Öryggisþörfinni þarf að fullnægja áður en hægt er að sinna öðrum þörfum. 

 

Umhyggja 

Barn hefur þörf fyrir að tilheyra félagslega og upplifa sig sem hluta af hópi / bekk, vill vera þátttakandi, vill deila með öðrum og blómstrar í samvinnu, á gott með að mynda tengsl og vill að öðrum líki við sig. Þörfin er uppfyllt með samskiptum við aðra og að vera samþykkt.

Áhrifavald 

Barnið vill standa sig vel, hefur þörf fyrir að vita hvað á að gera áður en það framkvæmir, hefur ríka þörf fyrir hrós og viðurkenningu, er skipulagt, stundum stjórnsamt, kappsamt og öruggt í fasi og framkomu. Áhrifaþörfin er uppfyllt með góðri frammistöðu og viðurkenningu.

 

Frelsi 

Barnið vill hafa valmöguleika, hefur þörf fyrir sveigjanlegt umhverfi og tilbreytingu, hefur gaman af sköpun og tilraunum, er sama hvað öðrum finnst, til í að prófa nýja spennandi hluti. Frelsisþörfina má helst uppfylla með því að fá frið til að gera og hugsa það sem maður vill en einnig með því að læra að taka meiri ábyrgð. 

 

Gleði 

Barn gerir oft að gamni sínu og hlær að sjálfu sér og öðrum, áhyggjulaust, sátt við umhverfið og hefur almennt gaman af lífinu, sækir í spennu og er orkumikið. Gleðiþörfinni má svala á marga vegu í gegnum leik, nám, sköpun og áskoranir.

Stjarna.jpg
Fiðrildi.jpg
Hjarta.png
Blaðra.jpg
Hringurinn.png
bottom of page