top of page
Upphaf "nýja skólans"
Haustið 1966 og næstu ár. Úrdráttur  úr pistli eftir Pétur Bjarnason í tilefni af 50 ára afmæli Bíldudalsskóla haustið 2016.

Það dróst um tæpan mánuð haustið 1966 að skólinn væri settur vegna framkvæmda við nýbygginguna, en skólasetning fór annars fram fyrstu daga októbermánaðar.

Reglulegu skólahaldi lauk svo um mánaðamót apríl-maí. Í maímánuði voru sex ára börn í forskóla í þrjár vikur og 10 ára börn voru jafnlengi í skólanum að búa þau undir bóklegu fögin eins og það hét, sem hófust í 4. bekk.

Sumrið 1966 kom þáverandi formaður skólanefndar, Kristján Ásgeirsson, að máli við mig í Reykjavík og bað mig að koma vestur og taka við þessum nýja skóla, en áður hafði verið kennt í Gamla skóla og kjallara samkomuhússins. Þá var enginn kennari með kennsluréttindi við skólann og hafði ekki verið í nokkur ár. Það varð úr að ég lét til leiðast og kom svo vestur með búslóðinni okkar 1. september 1966, sama kvöldið og sjónvarpið hóf göngu sína. Ég fékk far með flutningabílnum og ferðin tók eitthvað um 9 eða 10 tíma.

Þarna var ég að taka við skólastjórn 25 ára gamall, en þá hafði ég kennt í tvö ár við Hlíðaskóla í Reykjavík.

Þetta haust voru nemendur 72 talsins, átta árgangar í sex bekkjardeildum. Kennarar voru tveir auk skólastjórans, Sigurður Guðmundsson í Otradal og Kristín Pétursdóttir í Svalborg. Ingrid kona Sigurðar kenndi handavinnu stúlkna og Anna Knauf kenndi söng, en hún var jafnframt organisti við kirkjuna. Þá er starfsliðið upptalið, nema að Stína Jóns sá um ræstingarnar. Reyndar fengum við til okkar kennara af og til að kenna dans, vera með skíðanámskeið og fleira. Ég fékk sálfræðing, Örn Pálsson, eitt árið til að koma vestur og ræða við nokkra nemendur og foreldra og vera með fræðslu.

 

Flestir urðu nemendur á þeim tíu árum sem ég starfaði við skólann áttatíu og einn, þá níu árgangar.

Það var gaman að koma til starfa í þessu nýja húsi en það tók þó mörg ár að ljúka við skólann, koma dúkum á gólfið og ganga frá öllum innréttingum og fleiru, svo sem svalahandriði. 

Við tókum upp eins konar annarnám, þar sem við tókum tvær lesgreinar af fjórum fyrri hluta vetrar og lukum prófi í þeim og síðan hinar tvær síðari hlutann. Þetta þótti merkilegt nýmæli! Alltaf var lögð mikil áhersla á söng og reyndar líka framsögn og ekki síður á leiklistina, sem var reyndar grasserandi í þorpinu þá, því leikfélagið Baldur var nýkomið til og starfaði af miklum þrótti. Þetta smitaðist til æskunnar. Þá voru teknir upp foreldrafundir í skólanum, sem höfðu ekki tíðkast reglulega fram að því.

 

Í þessum stutta pistli til ykkar verður ekki reynt að ná neinni yfirsýn eða gefa skýrslu um starfið heldur eingöngu að bregða upp svipmyndum sem mér eru hugstæðar. Meðal þeirra eru gönguferðir, sem oft voru farnar út á Bana eða lengra út með firðinum og þær voru alltaf mjög ánægjulegar. Sérstaklega var þetta gert eftir að langþráðir sólargeislar fóru að sýna sig í febrúar. Oft var bjart veður um þetta leyti og líklega er öllum, sem þarna búa og hafa búið, hugstæð sólarröndin í fjallinu fyrir ofan, hvernig hún fetar sig neðar og neðar á hverjum degi þar til að lokum hún fer að lýsa í bænum. Við í skólanum tókum alltaf eins til tveggja daga forskot á þessa sælu þegar þannig viðraði. Þá fór hópurinn upp að spennistöð eða hærra þar til við vorum böðuð í sólarljósinu og þá var sungið fyrir sólina.

Þetta er meðal ljúfustu minningum mínum úr skólastarfinu. Þær eru margar en of tímafrekt að geta þeirra allra hér.

Pistilinn í heild sinni má lesa hér.

bottom of page