top of page
SKÓLASTEFNA
Skólastefna Vesturbyggðar

Bæjarstjórn Vesturbyggðar samþykkti að unnin yrði skólastefna fyrir sveitarfélagð. Skólastefnan nær yfir leikskóla, grunnskóla og tónlistarskóla og er unnin skv. lögum um leik- og grunnskóla. Ingvar Sigurgeirsson, prófessor við Háskóla Íslands, tók að sér að stýra verkinu og hélt hann fundi með starfsfólki skólanna, nemendum og foreldrum og sveitarstjórnarfólki til að undirbúa stefnumótunina. Samhliða starfaði verkefnisstjórn en fræðslunefnd gegndi því hlutverki. 

Markmið sveitarfélagsins er að starfrækja skóla í byggðinni sem standast ítrustu gæðakröfur þar sem allir leggjast á eitt um að stuðla að fjölbreyttu, skapandi og metnaðarfullu skólastarfi og sem bestum árangri. Vellíðan barna og starfsfólks skal vera í fyrirrúmi. Áhersla er lögð á framúrskarandi starfsaðstæður, kurteisi, gagnkvæma virðingu, jafnrétti og mannréttindi, samvinnu og lýðræðislega starfshætti.

Skólastefnuna í heild sinni er að finna hér.

Vaxtahugarfar

Við stefnum í þá átt að efla vaxtar hugarfar og vinna okkur frá fastmótuðu hugarfari. Við ræktum hæfileika, viljum að nemendur hugsi: Ég get þetta ekki NÚNA, í stað þess að hugsa ég get þetta EKKI. Að nemendur fagni áskorunum, leiti leiða til að bæta, rannsaki mistök og leiti skýringa. Að þeir líti á endurgjöf sem tækifæri til að læra en ekki sem neikvæða gagnrýni. Vaxtahugarfar fjallar í stuttu máli um hvernig við hugsum um möguleika okkar til að bæta við okkur færni og hæfni í því sem tökum okkur fyrir hendur. Skólafólk sem tekur mið af þessari sýn setur sig í þær stellingar að allir geti bætt við sig þekkingu og færni.

Í stuttu máli snýst þetta um að trúa því að við getum vaxið með því að leggja okkur fram eða við teljum að hæfileikar okkar og greind sé meitluð í stein og verði ekki breytt. Sú mynd sem við höfum í huganum getur því ýmist leitt okkur til vaxtar eða komið í veg fyrir að við reynum að bæta árangur okkar.

Kennarar í Bíldudalsskóla leggja sig fram um að vera meðvitaðir um sitt eigið hugarfar því hugarfar þeirra hefur áhrif á hugmyndir þeirra um nám og kennslu.

 

Þeir sem einkennast af hugarfari vaxtar líta þannig á að með markvissri vinnu geti allir bætt árangur sinn, allir geti bætt greind sína og hæfni með því að vinna af þrautseigju, með góðum stuðningi og aðferðum sem henta. Sá sem einkennist af hugafari vaxtar spyr aldrei hvort hægt sé að kenna tilteknum einstaklingi eða hópi heldur spyr hann hvernig hann geti kennt þeim svo þeir nái árangri.

Framkoma og athafnir okkar hafa áhrif á hvort nemendur þróa með sér fastmótað hugarfar eða hugarfar vaxtar

 

Leiðsagnarnám

Í Aðalnámskrá grunnskóla kemur fram að leggja skuli áherslu á leiðsagnarmat sem byggist á því að nemendur velti reglulega fyrir sér námi sínu með kennurum sínum til að nálgast eigin markmið í náminu og ákveða hvert skal stefna. Leiðsagnarmat þýðir að fylgst er jafnt og þétt með stöðu og framförum nemenda og á grundvelli þess tekin ákvörðun um næstu skref. Það er ferli við að afla upplýsinga um hvar nemandinn er staddur í námi sínu og túlka þær. Leiðsagnarmat þjónar þeim tilgangi að nota niðurstöðurnar til að gera nauðsynlegar breytingar á námi og kennslu. Leiðsagnarmat miðar ekki að því að fella dóm um frammistöðu, heldur að hjálpa nemanda að bæta sig, með uppbyggjandi endurgjöf og leiðsögn.

Fimm grunnstoðir þurfa að vera undir þaki leiðsagnarnáms til að fullur árangur náist; námsmenning, skipulag, áhugi, námsmarkmið, viðmið og fyrirmyndir, samræður og spurningtæki og síðast en ekki síst endurgjöf.

Þessar grunnstoðir leiðsagnarnáms eru áhersluþættir í námi og kennslu Bíldudalsskóla.

bottom of page