top of page
SKÓLAREGLUR

Samskipta- og umgengnisreglur þessar eru grundvallaðar á leiðarljósi Bíldudalsskóla en einnig hugmyndafræði uppbyggingarstefnunnar sem kennd er við Diane Gossen. Þessu til viðbótar er stuðst við áætlun um forvarnir gegn einelti sem nefnd er „Olweusaráætlun gegn einelti“ sem styður mjög vel við uppbyggingarstefnuna.  Jafnréttisáætlun skólans er einnig lögð til grundvallar í skólastarfinu.  Uppbyggingarstefnan byggir á kenningum um hæfni einstaklings til sjálfstjórnar, hæfni hans til að tengja saman persónuleg lífsgildi og þann veruleika sem hann býr við. Hún kennir sjálfstjórn, sjálfsaga og eflir  hæfni hans til að taka ábyrgð á eigin orðum og gjörðum. Lögð er áhersla á að byggja einstaklinginn upp, að hann þekki þarfir sínar og uppfylli þær án þess að meiða aðra.

 

Gildi
  • Samskipti

  • Samvinna

  • Sköpun

Hvað er æskileg hegðun?

Ætlast er til að nemandi mæti stundvíslega og vel undirbúinn í skólann. Þar sem hann er, reiðubúinn til að takast á við krefjandi verkefni, þiggja leiðsögn og taka virkan þátt í viðfangsefnum skólastarfsins.

Nemanda er einnig ætlað að ganga vel um skólann sinn og láta sér annt um að samskipti í skólanum séu vinsamleg og til þess fallin að auka samkennd og öryggi nemenda og annarra sem í skólanum starfa.

Nemandi sýnir sjálfum sér og öðrum virðingu með framkomu sinni, orðum og gjörðum. Til að ná þessum markmiðum þarf að skilgreina hvað telst æskileg hegðun og hvað ekki.

 

Dæmi um æskilega hegðun nemanda.

 

Nemandi:

  • Hefur stjórn á eigin hegðun, bæði orðum og gerðum

  • Sýnir sjálfum sér og öðrum virðingu, kurteisi og tillitssemi

  • Gerir sér far um að leysa úr ágreiningi sem upp kann að koma af skynsemi og án ofbeldis

  • Gerir sér far um að setja sig í spor annarra

  • Fer vel með þau verðmæti sem honum er trúað fyrir, gengur vel um skólann og umhverfi hans

  • Virðir eigur annarra

  • Fer að fyrirmælum kennara og annars starfsfólks

  • Leggur sig ávallt fram við námið og sýnir metnað í að gera sitt besta

  • Virðir verk sín og vandar frágang á verkefnum sínum

  • Mætir stundvíslega, undirbúin og með þau gögn sem nota þarf

  • Virðir bekkjasáttmála

Framangreind lýsing á æskilegri hegðun á að jafnaði við um hegðun langflestra nemenda í Bíldudalsskóla. Stuðlað er að æskilegri hegðun með verkfærum eineltisáætlunarinnar, s.s. gerð bekkjasáttmála, bekkjafunda, T-spjalda og Y-spjalda, en einnig með því að nemendur læri að þekkja þarfir sínar og annarra.

 
Hvað er óásættanleg hegðun?

Til að nemendur átti sig betur á því hvar mörkin milli æskilegrar og óásættanlegrar hegðunar liggja, verða nemendur að gera sér grein fyrir hvað telst óásættanleg hegðun. Með því móti spornum við enn frekar gegn óásættanlegri hegðun þeirra fáu sem getur skaðað hina mörgu.

Við sættum okkur ekki við að nemandi:

  • Eyðileggi, hindri eða trufli skólastarf, vinnu nemenda, kennara eða annars starfsfólks

  • Láti sér ekki segjast við vinsamlegar ábendingar

  • Gangi í eigur annarra, skemmi eða steli

  • Valdi öðrum kvíða og öryggisleysi

  • Ógni öryggi annarra einstaklinga sem starfa í skólanum, nemenda, kennara eða annarra starfsmanna

  • Noti eða hafi undir höndum tóbak eða aðra vímugjafa

 

Dæmi um óásættanlega hegðun nemanda

 

Lögbrot

Við líðum ekki lögbrot, svo sem skemmdarverk, þjófnað, ofbeldi, vímuefnanotkun, alvarlegar hótanir eða annað ofbeldi.

 

Að öllu jöfnu er haft samband við foreldra/forráðamenn ef nemandi sýnir óásættanlega hegðun eða brýtur lög.  Þá er leitað eftir samvinnu um úrvinnslu mála.  Atvik eru alltaf skráð í dagbók nemenda í Mentor.  Þar kemur fram lýsing á aðdraganda og atburði og mat á þeirri hættu ef ekkert hefði verið aðhafst.

Þetta er gert samkvæmt 13. og 14. grein reglugerðar um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í grunnskólum.

Við setjum skýr mörk

Í Bíldudalsskóla setjum við skýr mörk á milli þeirrar hegðunar sem er æskileg og eðlileg og þeirrar hegðunar sem ekki er hægt að sætta sig við. Hegðun sem byggir á stjórnleysi er óásættanleg en hegðun sem byggir á sjálfstjórn er æskileg.

 

Nemandi fær val um tvær leiðir til lausnar  á málum sínum:

Leið 1 → Hann getur valið um að fara milda og árangursríka leið — uppbyggingu

Leið 2 → Hann velur að taka skilgreindum afleiðingum gjörða sinna — viðurlögum

 

Hvað gerist ef hegðun er óásættanleg?

Leið 1 → Árangursrík leið til lausnar — uppbygging

Nemendur geta valið árangursríka leið til lausnar ef hegðun þeirra reynist óásættanleg. Við í Bíldudalsskóla viljum vinna agamál á þann hátt að allir aðilar komi sem sterkastir frá samskiptum, tilbúnir að líta í eigin barm og ná betri stjórn á hegðun sinni.

 

Allir geta gert mistök.

Þeir sem starfa í Bíldudalsskóla eru mannlegir og þeim geta orðið á mistök í hegðun, umgengni og samskiptum. Það gildir um alla: Nemendur, kennara, stjórnendur og aðra starfsmenn skólans.

 

Mistök er hægt að leiðrétta

Besta leiðin til að vinna sig út úr vanda er að viðurkenna þau mistök  sem orðið hafa, gera áætlun um að leiðrétta þau og læra þannig betri leið sem nýtist viðkomandi við svipaðar aðstæður.

 

Ferli agamála í kennslustund

Fyrstu mistök:

  1. Kennari áminnir nemanda og gefur honum tækifæri til að ná stjórn á  eigin hegðun og leiðrétta mistök sín (finna betri leið sem bætir hegðun, sættir sjónarmið og nýtir „stutt inngrip“).

  2. Ef nemandi heldur uppteknum hætti, ræðir viðkomandi kennari frekar við nemandann um leiðir að lausn við fyrsta tækifæri og gerir með honum áætlun til uppbyggingar.

  3. Áætlunin er skráð í Mentor ásamt málsatvikum

  4. Viðkomandi kennari fylgir uppbyggingaráætluninni eftir með viðtali/viðtölum eftir atvikum.

Endurtekin óásættanleg hegðun í kennslustundum

Nemandi er látinn róa sig og viðkomandi kennari gengur frá uppbyggingaráætlun með honum við fyrsta tækifæri.

 

Inngrip vegna hættuástands

Ástand metið. Nemendum og starfsfólki forðað frá hættu. Kallað eftir aðstoð.

Leið 2 farin strax

Skráning fari fram skv. 13. og 14. gr. reglugerðar um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í grunnskólum.

 

 Dæmi um uppbyggingu

 

  1. Á göngum skólans, skólasafni, mötuneyti, íþróttamannvirkjum og á skólalóð:

  2. Starfsmenn skólans gefa nemanda tækifæri til að bæta hegðun sína með „stuttu inngripi“

  3. Haldi nemandinn uppteknum hætti og sýni neikvæða hegðun áfram vísar starfsmaður honum til umsjónakennara sem gerir uppbyggingaráætlun með nemandanum og viðkomandi starfsmanni við fyrsta tækifæri

  4. Þeir sem hlut eiga að máli fá upplýsingar um áætlun nemandans sem skráð er í Mentor

  5. Áætluninni er fylgt eftir með viðtali/viðtölum hjá umsjónarkennara

 

 
Ábyrgð, réttindi og skyldur starfsfólks skóla

 

Starfsfólk skóla skal ávallt bera velferð nemenda fyrir brjósti og leggja sig fram um að tryggja nemendum öryggi, vellíðan og vinnufrið til að þeir geti notið skólagöngu sinnar. Starfsfólk skal sýna nærgætni og gæta virðingar í framkomu sinni gagnvart nemendum, foreldrum og samstarfsfólki og gæta þagmælsku. Skólastjórnendum og kennurum ber að eiga samstarf við foreldra um hegðun, líðan og samskipti barna þeirra.

Úr 3. gr. reglugerðar um ábyrgð, réttindi og skyldur starfsfólks skóla.

 

Ábyrgð, réttindi og skyldur nemenda

 

Nemendur bera ábyrgð á framkomu sinni, háttsemi og samskiptum við skólasystkin og starfsfólk skóla, þ.m.t. rafrænum samskiptum og netnotkun með hliðsjón af aldri og þroska.  Nemendur eiga rétt á að láta skoðanir sínar í ljós og fá að tjá sig ef fundið er að hegðun þeirra skv. 5. gr. reglugerðar um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í grunnskólum.  Þar með talið hegðun barns gagnvart samnemendum og starfsfólki skv. 5. gr. reglugerðar um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í grunnskólum.

Ábyrgð, réttindi og skyldur foreldra

Foreldrar bera ábyrgð á uppeldi barna sinna, þ.m.t.  að þau sæki skóla og hegðun barns gagnvart samnemendum og starfsfólki.  Foreldrar gæta hagsmuna barna sinna og upplýsa starfsmenn skóla um þætti sem kunna að hafa áhrif á ástundun og hegðun.  Foreldrum ber ásamt nemanda að taka þátt í meðferð mála sem upp kunna að koma.  Þessi atriði byggjast á 5. gr. reglugerðar um ábyrgð og skyldur aðila í skólasamfélagsins í grunnskólum.

                                                             

Leið 2→ Nemandi þiggur ekki tilboð um að gera uppbyggingaráætlun

Ef nemandi þiggur ekki tilboð um að gera uppbyggingaráætlun er málum vísað til umsjónarkennara sem ákvarðar framhaldið. Í flestum tilvikum er boðað sem fyrst til fundar með foreldrum viðkomandi nemanda. Þá taka oftast við aðgerðir sem byggja ekki á sjálfstjórn nemanda heldur skilyrðum og eftirliti.

 

Dæmi um úrræði þegar nemendur geta ekki eða vilja ekki leiðrétta hegðun sína og snúa sterkari til starfa á ný:

  • Gerður samningur með skilyrðum

  • Nemanda er boðin aðstoð námsráðgjafa

  • Tilvísun í sérúrræði

  • Tilvísun til skólasálfræðings (með samþykki foreldra/forráðamanna)

  • Fundur með öllum kennurum viðkomandi nemanda

  • Stundaskrá nemanda skert (tímabundið)

  • Reglulegir stöðufundir með umsjónarkennara/foreldrum

  • Vísað til Nemendaverndarráðs

  • Foreldrar fylgja nemanda í kennslustundum

  • Sérstakt eftirlit í frímínútum

  • Brottvísun úr tíma og foreldri sækir nemanda.  Nemandi mætir ekki aftur hjá viðkomandi kennara fyrr en að afloknum fundi þar sem leitað er eftir samstarfi við foreldra og nemanda um leiðrétta hegðun í skólastarfinu

  • Brottvísun um stundarsakir. Þegar um brottvísun um stundarsakir er að ræða vegna ítrekaðra brota á skólareglum er unnið skv. 12. gr. reglugerðar um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í grunnskólum.

 

Lögbrot / alvarleg agabrot - viðurlög

Þegar nemendur brjóta alvarlega af sér eru foreldrar kallaðir til. Nemanda er vísað frá skóla á meðan afgreiðsla máls er undirbúin. Samkvæmt lögum má málsmeðferð taka allt að 5 virkum dögum án þess að nemanda sé útvegað annað skólaúrræði. Skólinn vinnur samkvæmt verklagsreglum um málsmeðferð vegna lögbrota og alvarlegra agabrota. Þegar um lögbrot er að ræða er unnið skv. 13. og 14. gr. reglugerðar um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í grunnskólum. Nemendur eru ekki sakhæfir fyrr en þeir hafa náð 15 ára aldri samkvæmt fæðingarvottorði. Mál sem berast lögreglu berast sjálfkrafa til barnaverndaryfirvalda.

 

Það er ávallt brugðist með skýrum hætti við alvarlegum brotum.

Reglur um skólasókn

 

Fjarvistir nemenda, veikindi og leyfi

Forföll nemenda skal foreldri/forráðamaður tilkynna til skólans, eða í Mentor að morgni skóladags eða um leið og við verður komið þann sama dag. Tilkynni foreldri/forráðamaður ekki forföll nemanda í síðasta lagi fyrir hádegi næsta kennsludag verður litið svo á að um óheimila fjarvist sé að ræða.

Ef nemandi, sem er veikur í lok skólaviku, er enn veikur í byrjun nýrrar skólaviku, skal aftur tilkynnt til skólans um veikindi hans á mánudagsmorgni.

Styttri leyfi

Þurfi nemandi stutt leyfi vegna læknisferða eða annars ámóta skal foreldri/forráðamaður tilkynna það til skólans fyrirfram og ekki síðar en þann sama dag.

Lengri leyfi

Leyfi til lengri tíma en 2ja daga þurfa samþykki skólastjórnenda auk umsjónarkennara. Foreldri skal snúa sér til umsjónarkennara með leyfisbeiðnina sem gefur álit sitt og sendir erindið til skólastjóra. Öll röskun á námi nemanda sem hlýst af umbeðnu leyfi er á ábyrgð foreldra eða forráðamanna sbr. 15. grein grunnskólalaga frá 2008.

Áherslur og verkefni vísast til upplýsinga á Mentor. Kennurum Bíldudalsskóla er ekki skylt að útbúa sérstakar áætlanir eða verkefnapakka fyrir nemendur á meðan á leyfi þeirra stendur enda er nám barnsins þá á ábyrgð foreldra.

 

Óheimilar fjarvistir

Nemendur skulu mæta á réttum tíma í allar kennslustundir. Mæti nemandi ekki í kennslustund án gildra skýringa skal umsjónarkennari strax hafa samband við foreldra/forráðamenn. Ef nemandi er fjarverandi úr kennslustund án þess að foreldri/forráðamaður hafi tilkynnt um forföll eða beðið um leyfi fyrir nemandann er litið á að um óheimila fjarvist sé að ræða.

Misbrestur á skólasókn er skráð í Mentor  og geta foreldrar fylgst með þar. Í byrjun hvers mánaðar er yfirlit sent í tölvupósti. Leitast er við að finna farsæla lausn í samráði og samvinnu við foreldra áður en til annarra úrræða kemur.

 

Óstundvísi

Nemendur skulu mæta á réttum tíma í allar kennslustundir. Komi nemandi eftir að kennari hefur hafið kennslu telst nemandinn hafa komið of seint.

Komi nemandi ítrekað of seint í kennslustund skal umsjónarkennari hafa samband við foreldra/forráðamenn eins oft og þurfa þykir. Ef ekki verður breyting til batnaðar skal umsjónarkennari í samráði við skólastjóra vísa málinu til nemendaverndarráðs og tilkynna foreldrum/forráðamönnum það.

Almennar umgengnisreglur

Heimanám og gögn

Nemendum ber að koma undirbúnum og með nauðsynleg gögn í skólann.

 

Á göngum skólans

Nemendum ber að ganga hljóðlega um skólahúsnæðið og sýna tillitssemi.

 

Skófatnaður, yfirhafnir og höfuðföt

Farið er úr skóm í forstofum og þeim komið fyrir í skóhillum. Undantekningar eru gerðar á jólaskemmtunum og árshátíð. Snagar fyrir yfirhafnir eru á göngum. Nemendur eru hvattir til að skilja ekki eftir verðmæti í yfirhöfnum eða töskum. Mælst er til að fatnaður og áhöld í eigu nemenda séu vel merkt.

 

Mataraðstaða - matsala

Nemendur skulu neyta matar í matsal skólans. Hver nemandi gengur frá þeim áhöldum sem hann notar í matartímum. Allir nemendur skulu hjálpast að við að hafa snyrtilegt í kringum sig og viðhafa góða borðsiði.

Yngri nemendur borða nesti sitt inni í kennslustofu. Unglingadeildin borðar nesti sitt í aðstöðu á ganginum. Allir borða hádegismatinn sinn í matsalnum.

Nemendur eiga að vera í skólanum á skólatíma

Ætlast er til þess að nemendur í 1.-7.bekk séu í skólabyggingunni eða á skólalóð á skólatíma. Undanskildar eru ferðir í íþróttahús, sundlaug, vettvangsferðir og samkomuhús.

 

Nesti í Bíldudalsskóla

Skólanesti á að vera hollt og gott og í takt við leiðbeiningar embætti landlæknis, sjá á eftirfarandi slóð: http://www.landlaeknir.is/servlet/file/store93/item20821/Till%C3%B6gur%20a%C3%B0%20hollu%20og%20g%C3%B3%C3%B0u%20nesti_1.pdf. Í umhverfisstefnu Bíldudalsskóla er mælst til að foreldrar sendi börn sín í skólann með fjölnota umbúðir (forðast svalafernur og plastpoka). Nemendur eru beðnir að taka einnota umbúðir með sér heim aftur eða skola umbúðirnar og setja í endurvinnslutunnur. Allt óæskilegt nesti verður gert upptækt!

Nestistímar eru að jafnaði kl.: 9:50—10:00 hjá nemendum í 1.-7. bekk en 9:30-9:50 hjá nemendum í 8.-10. bekk.

 

Rafeindatæki

Notkun rafeindatækja í kennslustundum er háð leyfi kennara. Rafeindatæki sem nemendur verða uppvísir af að nota án leyfis kennara verða sett í vörslu skólastjórnenda og verða nemendur/foreldrar að nálgast þá þar.

 

Snjallsímanotkun

Snjallsímanotkun er ekki leyfði í kennslustund nema með sérstöku leyfi kennara. Myndatökur eða myndbandsupptökur af starfsfólki og nemendum eru bannað nema með leyfi viðkomandi. Tæki í eigu nemanda er alfarið á hans ábyrgð.

 

Sælgæti og gosdrykkir

Nemendum er ekki leyfilegt að neyta sælgætis eða gosdrykkkja í skólanum nema með sérstöku leyfi kennara.

Reiðhjól og hjólatæki

Nemendum skólans er heimilt að koma á reiðhjólum í skólann og mikilvægt er að gengið sé frá þeim við skólann. Reiðhjól og önnur hjólaleiktæki eru alfarið á ábyrgð nemenda og forráðamanna þeirra, einnig er það á ábyrgð forráðamanna að nemendur noti viðeigandi öryggisbúnað.

bottom of page