top of page

Vordagar í Bíldudalsskóla

Dagana 28. maí-1. júní héldum við árlegu vordagana okkar í grunnskólanum.

Það var heldur betur fjör og gleði og óhætt að segja að dagskráin hafi verið fjölbreytt!


Fyrr í vikunni höfðum við einnig skemmtilega uppbrotsdaga en á þriðjudeginum var dagur almannavarna þar sem við höfðum brunaæfingu um morguninn og svo kom slökkviliðið og lögreglan í heimsókn til okkar með bílana sína og voru með kynningu fyrir nemendur. Á miðvikudeginum gróðursettum við birkitré í lundinum við gömlu rafstöðina í blíðskaparveðri og á fimmtudeginum horfðum við á fyrstu útkomu árshátíðarmyndbandsins okkar, en árshátíðin var tekin upp í ár vegna COVID og við fengum góða hjálp við gerð myndbandsins sem stendur til að senda á foreldra núna í júní þegar það verður tilbúið.


Fyrsti dagurinn, föstudagurinn 28. maí, byrjaði með hollum og góðum morgunmat í skólanum og því næst var haldið niður á slökkviliðstún þar sem menn frá slökkviliðinu voru klárir með froðugaman í æðislegu veðri og nemendur leikskólans kíktu við og tóku þátt.











Á mánudeginum var haldin uppskeruhátíð Harry Potter smiðjanna sem nemendur hafa unnið í á vorönninni. Herlegheitin byrjuðu á því að nemendur fengu glaðning fyrir utan útidyrnar hjá sér á sunnudagskvöldinu ásamt bréfi þar sem þeir voru boðnir velkomnir í Galdraskóla Bíldudals. Glaðningurinn innihélt galdraskykkju, Hogwarts peninga og töfrasprota sem nemendur höfðu búið til í smiðjunum. Í galdraskólanum skiptu nemendur sér niður á vistirnar Slytherin, Hufflepuff og Ravenclaw og kepptu svo í þeim liðum í Harry Potter Kahoot spurningakeppni. Því næst var haldið út á Tungu þar sem teknar voru myndir af öllum galdranemendunum og þaðan niður í Baldurshaga þar sem búið var að útbúa bíósal með galdrasjoppu þar sem þeir gátu verslað góðgæti fyrir Hogwarts peningana sína. Horft var á 4. Harry Potter myndina.

Eftir hádegið fór eldri hópurinn í Harry Potter Escape Room verkefni á netinu þar sem þau þurftu að leysa þrautir til að klára verkefnið og yngri hópurinn fór í spilaval.

Dagurinn var frábær og glaðir nemendur fóru heim í skikkjunum sínum í lok dags.


















Á þriðjudaginn enduðum við svo skólaárið með hoppukastala og mennsku "fuzball" spili í íþróttahúsinu, þar sem nemendur leikskólans komu og tóku þátt með okkur og grilluðum pulsur áður en allir héldu heim í sumarfrí.

















Stórskemmtilegir dagar sem höfðu verið undirbúnir og skipulagðir af miklum metnaði ásamt því að við fengum heilmikla hjálp frá samfélaginu okkar til að gera þessa daga svona eftirminnilega og langar okkur að þakka eftirtöldum aðilum kærlega fyrir aðstoðina og þeirra þátt í þessu:


Foreldrafélag Bíldudalsskóla

Slökkviliðið

Lögreglan

Arnarlax hf.

Íslenska kalkþörungafélagið

Nanna ehf.

Guðrún Ingibjörg Halldórsdóttir

Ólafur Helgi Kolbeinsson

Nanna Sjöfn Pétursdóttir og skógræktarfélagið

og öllum þeim sem tóku þátt á einn eða annan hátt.








Nýlegar fréttir
Flokkun
Fylgdu okkur
  • Facebook Basic Square
  • Twitter Basic Square
  • Google+ Basic Square
bottom of page