top of page

Stóra upplestrarkeppnin í 7. bekk

Þriðjudaginn 26. apríl síðastliðinn var Stóra upplestrarkeppnin haldin í Félagsheimili Patreksfjarðar og er það í fyrsta skipti sem keppnin er haldin á vegum sveitarfélaga landsins en undanfarin ár hafa Raddir, samtök um vandaðan upplestur og framsögn, haldið utan um keppnina. Í ár tóku samtals 9 keppendur þátt frá Bíldudalsskóla, Patreksskóla og Tálknafjarðarskóla.

Í fyrstu umferð lásu keppendur uppúr skáldsögu Gunnars M. Magnússonar, Bærinn á ströndinni: saga úr lífi Jóns Guggusonar. Í annarri umferð lásu þeir ljóð úr ljóðabókinni Klettur eftir Ólaf Svein Jóhannesson og luku svo þriðju umferð á að lesa ljóð að eigin vali.

Dómnefndina skipuðu þrír einstaklingar, einn frá hverjum stað en það voru þau Kristján Arason frá Patreksfirði, Gauja Hlín Helgudóttir frá Bíldudal og Lilja Magnúsdóttir frá Tálknafirði. Þá var það Lionsklúbburinn á Patreksfirði sem tók þátt í að styrkja keppnina um verðlaun í samstarfi við Vesturbyggð.

Fulltrúar okkar í 7. bekk í Bíldudalsskóla, þau Gabríel Alexander Andrason og Védís Eva Elfarsdóttir, stóðu sig með stakri prýði og svo fór að Bíldudalsskóli hreppti 1. sætið í keppninni en það var Védís Eva Elfarsdóttir sem lenti í 1. sæti og óskum við henni innilega til hamingju með árangurinn.

Patreksskóli lenti í 2. sæti og Tálknafjarðarskóli í 3. sæti og óskum við öllum keppendunum til hamingju með árangurinn en það var stórskemmtilegt að hlusta á alla þessa flottu lesara frá skólunum okkar hér á sunnanverðum Vestfjörðum.Keppendur Bíldudalsskóla, Védís Eva Elfarsdóttir og Gabríel Alexander Andrason ásamt umsjónarkennurum sínum, Lilju Rut Rúnarsdóttur og Signýju Sverrisdóttur.

Nýlegar fréttir
Flokkun
Fylgdu okkur
  • Facebook Basic Square
  • Twitter Basic Square
  • Google+ Basic Square
bottom of page