top of page

Hrekkjavökugleði í Bíldudalsskóla

Í dag fimmtudaginn 29. október var heldur betur hátíð í Bíldudalsskóla.

Við héldum í fyrsta skipti hrekkjavökugleði fyrir alla nemendur skólans þar sem dagurinn allur var undirlagður í gleði, hópefli og sameiginlega skemmtun allra, bæði nemenda og starfsfólks.

Undanfarnar vikur hafa nemendur rætt um hrekkjavökuna og unnið verkefni í tengslum við þennan dag. Þá höfðu nemendurnir einnig skreytt nánast allar hurðir skólans og breytt þeim í hrekkjavökuhurðir :)

Þegar nemendur mættu í skólann kl.8.00 í morgun brá þeim heldur en ekki í brún þegar þeir uppgötvuðu að skólanum hafði verið umturnað í hryllingsskóla!

Við tók heljarinnar dagskrá allan skóladaginn með gleði, dansi, myndatökum, leikjum, bíói og allskonar skemmtilegheitum ásamt því að öllum nemendum og starfsfólki var boðið í pizzaveislu í mötuneytinu í hádeginu.

Allir nemendur og starfsfólk höfðu lagt mikla vinnu í að undirbúa áður en komið var í skólann og hingað mættu, uppvakningaklappstýrur, slátrari, draugar, trúðar, nunna (látin) og nornir svo eitthvað sé nefnt!

Nemendur fengu þá að taka með sér sparinesti og öllum fannst ótrúlega skrítið að þurfa ekki að taka með sér skólatösku heilan skóladag í október!

Ekki var svo verra að Foreldrafélag Bíldudalsskóla og Leikfélagið Baldur styrktu skólann um kaup á hrekkjavökuskrauti svo hægt væri að skreyta skólann og breyta honum í hryllingsskóla sem og að verslunin Fjölval og Veitingastofan Vegamót styrktu okkur um dísætar gjafir sem nemendum var boðið uppá þegar leið á daginn og tóku svo með sér óvæntan glaðning heim. Við þökkum þeim öllum kærlega fyrir styrkina og erum óendanlega þakklát fyrir þeirra þátt í að gera þennan dag frábæran!

Þegar skóladeginum var svo lokið fóru yngri nemendur skólans í Frístund þar sem starfsmaður frístundar hafði undirbúið framhald á hrekkjavökupartýinu svo við tók enn meiri gleði.


Á morgun verður svo búningadagur á Tjarnarbrekku þar sem nemendur leikskólans munu einnig fá að njóta styrkjanna sem skólarnir fengu og hafa gleði og gaman með starfsfólki Tjarnarbrekku.


Ég vil nýta tækifærið og þakka starfsfólki skólans fyrir frábæra og óeigingjarna vinnu en þeir lögðu allt sitt í að gera daginn sem eftirminnilegastan fyrir nemendur sem og starfsfólk skólans því vinnan á bakvið daginn fór fram að kvöldi til í sjálfboðavinnu sem varð að dásamlegri samverustund og hópefli starfsfólks en hugmyndin af þessum degi kom frá kennurum. Algjörlega ómetanlegt þegar starfsfólk ákveður með sjálfu sér að vinna sjálfboðavinnu til að stuðla að góðum skólabrag og starfsanda.

Frábær hópur sem við höfum Í Bíldudalsskóla og Tjarnarbrekku!

Gleðilega hrekkjavöku!


Hér fyrir neðan gefur að líta aðeins smá brot af myndum sem teknar voru af því sem allir upplifðu á þessum eftirminnilega degi :)

Nýlegar fréttir
Flokkun
Fylgdu okkur
  • Facebook Basic Square
  • Twitter Basic Square
  • Google+ Basic Square
bottom of page