top of page

Hertar sóttvarnaraðgerðir og fyrirkomulag skólanna til 17. nóvember

Kæru foreldrar.

Frá og með deginum í dag, til og með þriðjudeginum 17. nóvember hafa hertar aðgerðir tekið gildi í öllum skólum landsins.


Fyrirkomulagið hjá okkur verður í samræmi við landið allt en við munum eins og áður huga vel að handþvotti og spritti sem og að allt starfsfólk skólanna og nemendur í 5.-10. bekk munu bera grímur þegar ekki er hægt að koma tveggja metra reglunni við.


Við höfum nú "hólfað" hópana niður í grunnskólanum þar sem eldri hópurinn fer ekki á neðri hæðina nema til að sækja sjónlistartíma, fara út í frímínútur eða nota salernisaðstöðu. Yngri hópurinn fer ekki upp á efri hæð nema eftir að skóla lýkur til að fara í frístund og henni verður hagað þannig að reynt verður að halda þeim inni í frístundarstofunni eða vera úti við.


Þar sem öll íþrótta- og tómstundastarfsemi er bönnuð þessar tvær vikur munu nemendur á eldra stigi koma einni kennslustund fyrr heim á þeim dögum sem íþróttatímar og íþróttavaltímar eiga að vera. Annar umsjónarkennari yngsta stigsins mun sjá um íþróttatíma yngra stigs þar sem þau munu fara í göngutúra og fá þannig smá hreyfingu á skóladeginum.


Í mötuneytinu verður nemendum í 5.-7. bekk skipt á milli tveggja stórra langborða þar sem setið verður í öðru hverju sæti. Yngsta stig mun sitja í sínum sætum þar sem reglan á ekki við þau og 8.-10. bekkur mun borða uppi í skóla í sinni stofu þar sem nóg pláss er til að viðhalda fjarlægðarmörkum. Matráðar skammta matinn og rétta nemendum áhöldin, s.s. diska, glös og hnífapör.


Hvað Patró ferðina föstudaginn 13. nóvember varðar mun ég láta vita í næstu viku hvernig fyrirkomulagið verður.


Þá munum við einnig eins og áður passa vel upp á sótthreinsun í þrifum og sótthreinsa alla snertifleti eftir að nemendur hafa lokið skóladegi.


Skólinn mun skaffa nemendum og starfsfólki grímur svo ekki er nauðsynlegt að koma með grímur að heiman.

Nemendum er að sjálfsögðu velkomið að koma með grímur að heiman en þá vil ég biðja foreldra að passa að fjölnota grímur standist reglur, þ.e. að inni í þeim sé þar til gerður filter sem á að varna að bakteríur fari frá munni. Inni á netinu má finna allar reglur um fjölnota grímur.


Áfram verður takmarkaður aðgangur inn í skólabyggingarnar og ef foreldrar Bíldudalsskóla þurfa af einhverjum ástæðum nauðsynlega að koma inn í skólann vil ég vinsamlegast biðja þá um að setja upp grímu áður en komið er inn.


Sama gildir um Tjarnarbrekku að þegar foreldrar koma með börnin að morgni eða sækja þegar degi lýkur að hafa grímu í vasanum til að setja upp ef þannig aðstæður skapast að ekki er hægt að koma tveggja metra reglunni við.


Ef einhverjar spurningar vakna vil ég biðja ykkur að hafa samband við mig í síma 450-2333 eða senda póst á signy@vesturbyggd.is en einnig er hægt að hafa samband við umsjónarkennara með því að senda póst eða hringja í síma 450-2334.

Kærar kveðjur, skólastjóri

Nýlegar fréttir
Flokkun
Fylgdu okkur
  • Facebook Basic Square
  • Twitter Basic Square
  • Google+ Basic Square
bottom of page