Blár dagur á Tjarnarbrekku og í Bíldudalsskóla
Blár Apríl, styrktarfélag barna með einhverfu, var stofnað árið 2013 af Ragnhildi Ágústsdóttur, Rannveigu Tryggvadóttur og Þórhildi Birgisdóttur. Markmið félagsins hefur alla tíð verið að stuðla að fræðslu og vitundarvakningu um málefni barna með einhverfu.
Á bláa daginn, klæðumst við bláu til að vekja athygli á málefnum barna á einhverfurófi.
Í ár bar daginn upp á föstudaginn 9. apríl en þá var blár dagur á Tjarnarbrekku þar sem nemendur mættu í bláu.
Mánudaginn 12. apríl, héldum við svo bláan dag í grunnskólanum þar sem nemendur horfðu á fræðslumyndbönd og stuttmynd um einhverfu og unnu verkefni tengd deginum þar sem rætt var um að við erum öll ólík og einstök á okkar hátt og að einhverfa er alls konar. Í myndböndunum var meðal annars fjallað um hvernig einhverfir skynja stundum umhverfið í kringum sig á ólíkan hátt en þeir sem ekki eru á einhverfurófinu.
Nemendur unnu skemmtilegt verkefni þar sem allir fengu eins fiðrildi og hver og einn gerði sitt munstur í mismunandi bláum og hvítum litum. Verkefnið er mjög táknrænt þar sem við erum öll fiðrildið með eins lögun en hver og einn hefur svo sitt litríka munstur sem sýnir að við erum öll falleg og einstök á okkar hátt.
Hér eru myndir frá dögunum:





