Páskafrí Bíldudalsskóla

Kæru foreldrar og forráðamenn.
Þá er þessari viku lokið og hún gekk vel. Nemendur unnu mjög fjölbreytt og skemmtileg verkefni sem þjálfa hina ýmsu hæfni. Það er þó óhætt að segja að þessar aðstæður taka mikið á alla og eftir því sem tíminn líður kemur það betur og betur í ljós. Við höldum þó ótrauð áfram í skólastarfinu og gerum okkar allra besta til að láta hlutina ganga sem best, starfsfólk, nemendur og foreldrar allir sem eitt!
Í morgun áttum við skemmtilegan dag þar sem umsjónarkennarar og stuðningsfulltrúar gerðu sér glaðan dag með nemendunum. Farið var í Kahoot keppnir, limbó, Ipad, LEGO tilraunir, horft á skemmtilegar bíómyndir svo fátt eitt sé nefnt. Gleði og gaman í öllum hópunum.
Þá var toppurinn að við fengum lítil páskaegg í styrk frá foreldrafélaginu svo allir hópar fóru í páskaeggjaleit ýmist inni eða úti í skóginum okkar á bak við skólann. Hver nemandi fékk sitt egg og allir höfðu gott og gaman af. Við þökkum foreldrafélagi Bíldudalsskóla og Tjarnarbrekku hjartanlega fyrir þennan glaðning sem vakti mikla lukku!
Nú er páskafríið skollið á með allri gleðinni og átinu sem því fylgir!
Við gerum ráð fyrir að fyrirkomulagið verði það sama eftir páskafrí að öllu óbreyttu. En eins og við nú vitum geta aðstæður breyst frá degi til dags og því er áfram mikilvægt að fylgjast vel með á öllum miðlum.
Við byrjum aftur samkvæmt plani, þriðjudaginn 14. apríl:
1.-4. bekkur: 8:10-11:50
5.-7. bekkur: 8:20-12:00
8.-10. bekkur: 8:30-12:10
Bestu páskakveðjur til ykkar allra og megið þið eiga gott og notalegt páskafrí,
starfsfólk Bíldudalsskóla.