top of page

Liðin vika og áframhaldandi skólastarf

Kæru foreldrar og forráðamenn.

Þá er þessari viku lokið og skólastarfið hefur gengið vonum framar. Kennslan hefur gengið vel þrátt fyrir miklar breytingar og allir, bæði starfsfólk og nemendur hafa þurft að laga sig að breyttum kennsluaðferðum og breyttum reglum í skólaumhverfinu.

Allt starfsfólkið hefur gefið allt sitt í að láta starfið ganga sem best og hafa allir gengið í þau störf sem þarf hverju sinni, hvort sem er að þrífa skólann eða koma inn í kennslu þar sem þarf. Allir leggjast á eitt og gera allt sem þeir mögulega geta til að hjálpa til við að gera allt eins og best verður á kosið. Foreldrar og nemendur eru mjög meðvitaðir og við þökkum öllum kærlega fyrir að vera svona samtaka í að gera sem best úr aðstæðunum.

Við eigum öll mikið hrós skilið fyrir það sem við höfum gert á þessum erfiðu tímum!

Ég vil koma því á framfæri að við leggjum okkur fram um að fylgja öllum þeim reglum, fyrirmælum og tilmælum frá Almannavörnum sem við fáum og gerum allt sem í okkar valdi stendur til að stuðla að öryggi allra á þessum tímum, bæði hvað varðar einstaklinga í sóttkví og fyrirmæli tengd þeim aðstæðum sem og að bregðast við ef upp kemur vísbending um smit eða annað sem þarf að takast á við.

Fyrir utan þá hræðilegu veiru sem COVID-19 er, hefur einnig verið mikil flensutíð þessar síðustu vikur og mikið hefur verið um veikindi bæði starfsfólks og nemenda. Við erum mjög meðvituð um þær ráðstafanir sem þarf að gera ef upp kemur minnsta vísbending um mögulegt smit, fylgjumst mjög vel með og bregðumst við eins og ráðleggingar segja til um.

Sem betur fer hefur ekki komið upp smit hjá neinum í skólunum okkar en við munum að sjálfsögðu bregðast strax við ef grunur leikur á að um smit gæti verið að ræða, sem við vonum að sjálfsögðu að gerist alls ekki.

Skólastarfið í grunnskólanum verður áfram með sama sniði eins og hér segir, en þó með fyrirvara um breytingar, og þá mun ég láta vita eins fljótt og ég mögulega get:

1.-4. bekkur mætir kl.8:10 og lýkur skóla kl. 11:50

5.-7. bekkur mætir kl.8.20 og lýkur skóla kl. 12:00

8.-10. bekkur mætir kl. 8.30 og lýkur skóla kl.12:10

Opnun leikskólans Tjarnarbrekku verður með örlítið breyttum hætti frá og með mánudeginum 30. mars. Mikill tími fer í þrif og sótthreinsun að leikskóla loknum og þar sem starfsfólk þarf að fara yfir öll leikföng og alla fleti eykur það álagið töluvert og því mun leikskólinn loka kl.15:00 svo starfsfólki gefist tími til að þrífa leikskólann hátt og lágt fyrir næsta dag.

Leikskólinn verður því opinn frá kl: 7:45-15:00 þangað til annað kemur í ljós.

Ég vil biðja ykkur vinsamlegast að hafa samband ef einhverjar spurningar vakna vegna þessa fyrirkomulags skólanna, sama hverjar spurningarnar eða vangavelturnar eru, með því að senda póst á signy@vesturbyggd.is eða hringja í síma 450-2333.

Það eru engar spurningar asnalegar og betra að hringja og fá að vita eða fá ráðleggingar heldur en að hafa áhyggjur.

Þá vil ég enn ítreka að þær reglur varðandi veikindi barna, tilkynningar um forföll og önnur tilmæli sem hafa komið í vikunni munu gilda áfram þangað til annað kemur í ljós.

Munum að við erum öll Almannavarnir og erum öll í þessu saman!

Bestu kveðjur til ykkar allra,

Signý Sverrisdóttir skólastjóri Bíldudalsskóla og Tjarnarbrekku

Nýlegar fréttir
Flokkun
Fylgdu okkur
  • Facebook Basic Square
  • Twitter Basic Square
  • Google+ Basic Square
bottom of page