top of page

Dagur leikskólans 6. febrúar

Dagur leikskólans er haldinn hátíðlegur þann 6. febrúar ár hvert. Að þessu sinni höfðu leikskólabörnin á Tjarnarbrekku búið til flott verkefni í sjónlistartíma hjá Klöru Berglindi um gamla tímann í tengslum við Þorrann.

Klara sýndi þeim myndir af gömlu torfbæjunum og þau ræddu saman um gamla tímann. Þá hönnuðu þau einnig sínar eigin útgáfur af íslensku sauðkindinni en þau höfðu kindurnar sínar í hinum ýmsu nýtískulitum.

Þau voru meðal annars spurð að því hvað kindin hefði marga fætur og þau vissu það öll, fjóra fætur! Þegar kom svo að því að teikna kindurnar voru fæturnir kannski aðeins fleiri en fjórir, eins og sjá má á meðfylgjandi myndum, enda má maður auðvitað ráða hvað kindin manns hefur marga fætur!

Þau gerðu einnig sína eigin torfbæi og fannst mjög merkilegt að það ætti að vera gras á þakinu og veltu því meðal annars fyrir sér hvernig væri ef þyrfti að slá þakið! Þá væri líka mjög skemmtilegt að leika sér í grasinu! En svolítið hættulegt......þar sem þetta er jú þak!

Listaverkin voru svo hengd upp á Vegamótum til sýnis fyrir gesti. Þá er einnig gestabók sem ég hvet alla að kvitta í þegar búið er að skoða flottu verkin þeirra.

Að lokum sungu leikskólabörnin, af sinni alkunnu snilld, fyrir mennina í kallakaffinu. Að þessu sinni fengu þeir að heyra lögin, Krummi svaf í klettagjá og Sólin er risin.

Að sjálfsögðu bauð Gísli Ægir upp á kex og djús áður en snúið var til baka á leikskólann.

Nýlegar fréttir
Flokkun
Fylgdu okkur
  • Facebook Basic Square
  • Twitter Basic Square
  • Google+ Basic Square
bottom of page