Útikennsla yngsta stigs
Í vetur eru nemendur í 1.-4. bekk í útikennslu einu sinni í viku. Umsjónarkennarar yngsta stigs sjá um útikennsluna þar sem lögð er áhersla á fjölbreytta kennsluhætti og áhugaverð viðfangsefni sem tengjast náttúrunni og grenndarsamfélaginu.
Miðvikudaginn 2. október fengu nemendur heldur betur skemmtilega heimsókn. Kennararnir höfðu skipulagt hjóladag í útikennslunni.
Kennslulotan byrjaði á heimsókn frá lögreglunni í Vesturbyggð. Þeir ræddu við nemendur um umferðaröryggi og hjálmanotkun og minntust einnig á öryggi vegna vinnusvæðisins á Bíldudalshöfn sem og að ráðleggja nemendum hvernig best og öruggast væri að fara frá skólanum og niður í mötuneyti (Baldurshaga) í hádeginu.
Þegar fræðslunni var lokið gerðu þeir hjólaskoðun á öllum hjólum og stilltu hjálma hjá öllum nemendum. Þess má geta að hjálmur er rétt stilltur þegar hægt er að koma tveimur fingrum á milli höku og hjálmafestingar.
Þegar allri skoðun lauk var ferðinni haldið niður að íþróttamiðstöðinni Byltu þar sem kennarar höfðu sett upp skemmtilega hjólabraut.
Að sjálfsögðu fylgdi lögreglan hópnum niður að íþróttamiðstöð og aðstoðaði nemendur í hjólabrautinni þangað til útikennslulotunni lauk.
Kunnum við lögreglunni bestu þakkir fyrir skemmtilegan dag!

1.-4. bekkur tilbúinn á nýskoðuðum hjólum, ásamt umsjónarkennurum og lögreglunni.