Jafningjafræðsla og kærleikur
Kennarar Bíldudalsskóla og Tjarnarbrekku fengu góða gesti í heimsókn þegar starfsfólk Tálknafjarðarskóla kom í heimsókn. Tilefnið var jafningjafræðsla þar sem skólastjóri Bíldudalsskóla og kennarar kynntu starf og áhersluþætti skólans. Kennarar voru með örkynningar þar sem vaxtarhugarfar, námsvísar, uppbyggingarstefnan, leiðsagnarnám og stafræn kennsla var kynnt. Virkilega ánægjulegur dagur sem vonandi á eftir að ýta undir frekara samstarf milli skólanna.
Nemendur í 7.-10. bekk fengu það hlutverk að skipuleggja viðburð og halda utan um hann. Til grundvallar var horft til lykilhæfninnar um sjálfstæði og samvinnu. Nemendur unnu með lykilhæfnina: Að geta unnið með öðrum og tekið á jákvæðan hátt þátt í samskiptum og lagt sitt af mörkum í uppbyggilegu samstarfi sem tengist námi og félagsstarfi í skóla. Verið leiðandi í samstarfi og borið ábyrgð í útfærslu leiða að sameiginlegum markmiðum.
7.-10. bekkur ákvað í tilefni Valentínusardagsins að halda kærleiksdag fyrir alla nemendur skólans. Nemendur funduðu saman og skipulögðu daginn. Hver og einn fékk hlutverk. Til dæmis sáu sumir um veitingar, aðrir um tónlist, enn aðrir um leiki og svo var skreytingarnefnd. Nemendur ákváðu að allir mættu koma í sparifötum, þeir útbjuggu kærleikshjörtu sem nemendur skrifuðu kærleiksrík orð á, allir stilltu sér upp við kærleiksvegginn og fengu af sér mynd. Það var farið í leiki, dansaðir voru fortnitedansar og just dance dansar og allir nutu veitinga sem bakstursnefndin bauð upp á.
Kærleiksdagurinn heppnaðist vel, allir skemmtu sér vel og viðburðurinn þjappaði nemendum saman og skapaði skemmtilegan anda í skólanum.





