top of page

Fullveldishátíð og skapandi skólastarf

Fullveldi Íslands varð 100 ára 1. desember og Bíldudalsskóli hélt upp á tímamótin með sýningu söng og gleði. Undanfarnar vikur hefur allur skólinn verið að vinna að verkefnum tengdum fullveldinu. Við settum upp tímalínu sem spannaði öll hundrað árin þar sem nemendur völdu sér ár og fundu upplýsingar um atburði sem gerðust þetta ár á Íslandi og erlendis. Margt skemmtilegt og áhugavert kom í ljós við þessa vinnu nemenda sem varð til þess að á göngum skólans eða í bíltúrnum heim heyrðust nemendur ræða sín á milli eða við fjölskyldumeðlimi um ýmsa atburði Íslandssögunnar má þar nefna frostaveturinn mikla, fyrsta þyrluflugið, hvenær styttan af Leifi heppna var sett upp og margt fleira fróðlegt.

Yngstu nemendurnir unnu veggspjöld um forsetana sem setið hafa við völd á Íslandi frá árinu 1944.

Stiklað var á stóru um sögu Bíldudals og 100 ára sögu gömlu rafstöðvarinnar á Bíldudal en hún var með fyrstu vatnsaflsrafstöðvum sem gagnsettar voru á Íslandi og því hundrað ár frá því að kveikt var á fyrstu ljósaperunni á Bíldudal.

Fjölskyldum var boðið að koma í heimsókn í skólann og sjá afraksturinn. Hátíðin byrjaði með söng nemenda í tröppum skólans og sungið var Íslenskuljóðið.

Nemendur sendu boðskort til bæjarstjórans og þáði hún boðið með þökkum og tók þátt í hátíðinni með okkur.

Unglingastigið sá um vöfflubakstur og kaffiveitingar og þar ómaði tónlist með lögum sem komust á topplistann árið 1918. Við getum státað að öflugu og góðu foreldrasamstarfi í Bíldudalsskóla og mátti sjá merki þess hversu margir komu og tóku þátt í hátíðinni og skólastarfinu með okkur.

Skapandi skólastarf í Bíldudalsskóla

Í skapandi skólastarfi eru kennsluaðferðir fjölbreyttar og vinnubrögð margskonar. Okkur langar að sýna ykkur smá brot af þeim fjölmörgu verkefnum sem unnin eru af nemendum við hin ýmsu tækifæri.

Hér læra nemendur í gegnum skapandi verkefni að vera góð við hvert annað og sýna öðrum virðingu. Þau læra að allir eru vinir í Bíldudalsskóla og þegar við stöndum saman getum við allt.

Unglingastigið er að vinna hópverkefni í stærðfræði þar sem þau eru að stofna sitt eigið fyrirtæki og taka með í reikninginn laun og launatengd gjöld, rekstrarkostnað og margt fleira. Raunverulegt stærðfræðidæmi sem þau eru að vinna sem er bæði krefjandi og skapandi. Þau fengu til liðs við sig sérfræðing á fjármálasviði, Jónas Heiðar Birgisson sem kenndi þeim uppsetningu í excel til að reikna út samtölu, hagnað, tap og þess háttar.

Landnám Íslands

Teiknilota hjá miðstigi og nemendur læra að vinna úr tvívídd yfir í þrívídd.

Yngsta stig grunnskólans vinnur að uppsetningu á tónverkinu Karnivali dýranna. Þar kennir ýmissa grasa og tilbúin verk eru fiskarnir í tjörninni, fuglarnir og skjaldbökurnar eru rétt að klárast.

Fleiri skapandi og skemmtileg verkefni vetrarins.

Helstu áherslur þessa skólaárs í Bíldudalsskóla eru leiðsagnarnám og vaxtarhugarfar. Við vinnum þessar áherslur í skapandi verkefnum sem eru sýnileg á veggjum skólans sem liður í því að skapa jákvæða og metnaðarfulla námsmenningu meðal nemenda, kennara, starfsfólks og foreldra Bíldudalsskóla.

Nýlegar fréttir
Flokkun
Fylgdu okkur
  • Facebook Basic Square
  • Twitter Basic Square
  • Google+ Basic Square
bottom of page