top of page

Fréttir af unglingadeild Bíldudalsskóla

Nýjar tölvur

Í vikunni fékk unglingadeild Bíldudalsskóla afhentar Chromebook tölvur. Þær eru fljótvirkar, kveikja á sér um leið og þú opnar þær og nemendur geta byrjað strax að vinna að verkefnum sínum. Hver nemandi fær sína tölvu til umráða í skólanum og ber ábyrgð á henni. Við notum mikið Google Classroom við verkefnavinnu svo kennslustundirnar eru að nýtast mun betur. Þetta er liður í því að efla val nemenda á fjölbreyttum námsgögnum því nemendur þekkja sinn eigin námsstíl best og þurfa að hafa val um margvíslegar leiðir að markmiðum. Allir nemendur eiga að hafa kost á fjölbreyttum tækjabúnaði til eigin nota við námið. Einnig styður þetta einstaklingsmiðun í námi, fjölbreytta kennsluhætti, hæfnimiðað nám og leiðsagnarmat.

Nemendur hafa áhrif

Nemendur í unglingadeild eru að leggja lokahönd á verkefni í íslensku sem heitir, Við höfum áhrif á það hvernig við lærum. Þar taka þau þátt í skipuleggja verkefni sem tekur mið af hæfniviðmiði sem kennari hefur valið. Nemendum er skipt í tvo hópa. Hvor hópur fyrir sig skipuleggur verkefni sem kennari leggur síðan fyrir alla unglingadeildina. Þau þurfa að huga að ýmsu eins og hvort verkefnið eigi að vera einstaklingsverkefni eða hópaverkefni, hvað verkefnið á að taka margar kennslustundir, hvaða efni þarf að nota í verkefninu, hvernig nemendur eiga að skila af sér verkefninu og að lokum hvernig á að meta verkefnið. Það sem vafðist mest fyrir þeim við gerð verkefnisins var hvernig ætti að meta það. Nákvæmlega það sem við kennarar erum nú oft að fást við í okkar vinnu. Gaman var að sjá hversu ólík verkefnin urðu og spennandi verður að leggja verkefnin fyrir þau og sjá árangurinn. Með þessu erum við vonandi að nálgast þá hugmynd að nemendur séu virkari í ákvörðunum um viðfangsefni og skipulag námsins.

Heimalestur

Við leggjum gríðarlega mikla áherslu á að allir nemendur í Bíldudalsskóla lesi heima og í skólanum á hverjum degi og þar er unglingadeildin ekkert undanskilin. Við byrjum alla morgna í skólanum á því að lesa og eiga góða stund. Þau eru samviskusöm og foreldrarnir eru með okkur í liði að hvetja þau áfram því við vitum öll að við þurfum að gera þetta saman. Það mun skila árangri!

Nýlegar fréttir
Flokkun
Fylgdu okkur
  • Facebook Basic Square
  • Twitter Basic Square
  • Google+ Basic Square
bottom of page