Hvað gerir kennarinn?
Meginhlutverk kennarans er kennslu- og uppeldisfræðilegt starf með nemendum, að vekja og viðhalda áhuga þeirra á námi, veita þeim handleiðslu á sem fjölbreytilegastan hátt og stuðla að góðum starfsanda og vinnufrið meðal nemenda.
Kennari er leiðtogi í námi nemandans og í því felst að kenna nemendum að læra og sækja sér þekkingu í stað þess að miðla henni eingöngu til nemenda. Þetta felur í sér áherslu á að skapa nemendum frjóar og fjölbreytilegar námsaðstæður.
Kennarar við Bíldudalsskóla leggja áherslu á fjölbreyttar kennsluaðferðir og fjölbreytt námsmat. Hér fyrir neðan má sjá dæmi frá sama skóladeginum þar sem kennarar eru að beita hinum ýmsu kennsluaðferðum.
Hér eru nemendur í unglingadeild í dönskutíma. Þau eru á spjallinu í rauntíma við hana Petru, að sjálfsögðu á dönsku. Frábær leið til að þjálfa talað mál.

Nemendur í miðdeild vinna skyggnusýningu í samfélagsfræði. Þau eru að kynna sér Malölu og baráttu hennar fyrir menntun. Nemendur ætla svo að halda skyggnusýningu og miðla sinni þekkingu áfram.

Í dag voru tónlistartímar hjá nemendum og lögreglan kom einnig í heimsókn.


Í stærðfræði á yngsta stigi var farið í keilu. Nemendur fengu stig fyrir að skjóta niður keilurnar og liturinn á tappanum sagði til um hversu mörg stig keilan gaf. Nemendur reiknuðu sjálfir út stigafjöldann.

Nemendur í 3. og 4. bekk unnu ritunarverkefni í íslensku.
Miðdeild teiknar geimverur og lærir um pláneturnar í sólkerfinu okkar í leiðinni.
