top of page

H. C. Andersen smiðjur

Í dag voru fyrstu smiðjulokin á þessu skólaári í Bíldudalsskóla. Foreldrum og öðrum aðstandendum var boðið að koma og skoða afrakstur smiðjuvinnunnar hjá nemendum þar sem þemað að þessu sinni var rithöfundurinn Hans Cristian Andersen og ævintýri hans.

Smiðjunum var skipt upp eftir stigum í þetta skiptið en það verður breytilegt í vetur.

Leikskólinn (9 nemendur) tók fyrir ævintýrið um Litla ljóta andarungann og gerðu fjölbreytt verkefni tengd sögunni. Má þar nefna sameiginlega veggmynd með persónum og umhverfi úr sögunni, bók þar sem nemendur myndskreyttu brot úr sögunni og fl. Til gamans má geta að nemendur eru á aldursbilinu 18 mánaða til 5 ára.

Yngsta stigið, 1. – 4. bekkur (18 nemendur) unnu með ævintýrið um Eldfærin. Sagan var lesin fyrir nemendur og farið yfir helstu atriði hennar, boðskap og fleira. Nemendur fengu svo hver og einn málsgrein úr sögunni sem sett var á eina blaðsíðu og myndskreytt í samræmi við textann. Öllum blaðsíðunum var síðan raðað saman í eina stóra bók sem myndaði ævintýrið, myndskreytt af nemendum.

Þá var nemendum skipt í þrjá hópa þar sem hver hópur sá um að gera hundana þrjá, með kisturnar sínar fullar af peningum. Hundunum var svo raðað inn í þrjár stofur merktar númerum eins og sagt var frá í sögunni. Gestum gafst svo kostur á að kíkja inn fyrir hverjar dyr og líta skepnurnar augum.

Miðdeildin, 5. – 7. bekkur (8 nemendur) tóku fyrir söguna um Prinsessuna á bauninni. Þau settu upp heilan kastala með 8 gluggum. Í hverjum glugga var myndskreyttur texti sögunnar. Það reyndi vel á að vinna sem hópur þegar textinn var valinn því sagan varð að vera í samhengi og engar endurtekningar. Það tókst vel og lokaverkið hið glæsilegasta. Nemendur í 5. bekk sáu um stutta kynningu fyrir gesti á rithöfundinum góða.

Unglingadeildin, 8. – 10. bekkur (9 nemendur) gerðu verkefni tengd sögunni um Litlu hafmeyjuna. Þau gerðu samanburð á Disney ævintýrinu og ævintýri H. C. Andersen en Disney myndin byggir á upprunalegu sögunni. Einnig unnu þau stórglæsilegt myndverk sem þekur heilan vegg í unglingastofunni. Myndverkið sýnir mannheima annars vegar og sjóinn og fjöruna hinsvegar. Hafmeyjan prýðir svo miðjuna. Farið var í fjöruna til að finna efnivið og má segja að hálf fjaran hafi skilað sér inn í stofu, sandur, skeljar, þari og margt fleira. Einnig var boðið uppá fjölskyldu Kahoot spurningakeppni sem tengdist viðfangsefninu og var æsispennandi á köflum og allir höfðu gaman af.

Smiðjuvinnan hentar einstaklega vel til að efla lykilhæfni nemenda á fjölbreyttan hátt eins og skapandi og gagnrýna hugsun, geta nýtt sér miðla og aflað sér upplýsinga og notað í verkefnin. Þetta eflir sjálfstæði í vinnubrögðum en einnig að geta unnið saman í hóp. Frábærum smiðjum lokið og hlökkum til að byrja á þeim næstu.

Nýlegar fréttir
Flokkun
Fylgdu okkur
  • Facebook Basic Square
  • Twitter Basic Square
  • Google+ Basic Square
bottom of page