Skipulagsdagurinn
Síðastliðinn föstudag var skipulagsdagur í Bíldudalsskóla en þá héldu kennarar til Reykhóla. Í Reykólaskóla fór fram haustþing Kennarasambands Vestfjarða þar sem kennarar og skólastjórnendur af Vestfjörðum hittust til að fræðast og kynnast. Auk aðalfundar félags kennara og skólastjórafélags Vestfjarða voru áhugaverðir fyrirlestrar í boði ásamt námsgagnakynningu frá Menntamálastofnun. Fyrirlestrarnir voru, Leikur að læra hjá Kristínu Einarsdóttur, Legó í kennslu hjá Laufey Eyþórsdóttur, og Lykilhæfni hjá Meyvant Þórólfssyni dósent við Háskóla Íslands.
Aðalfyrirlesturinn var hjá Árný Ingvarsdóttur, sálfræðingi um Hugræna atferlismeðferð með börnum. Fjallað var um almennar áhyggjur og kvíðaraskanir, um reiði og reiðistjórnun sem og neikvæðni. Farið var yfir einkenni og uppruna kvíða, reiði og þunglyndis og hvað hægt er að gera til að takast á við slík vandamál. Í því skyni fjallaði hún um bækurnar „Hvað get ég gert við of miklar áhyggjur?", “Hvað get ég gert þegar reiði tekur völdin?” og “Hvað get ég gert við of mikla neikvæðni?” en allar byggja bækurnar á hugmyndafræði hugrænnar atferlismeðferðar. Bækurnar innihalda meðal annars verkefni fyrir börn og eru mikið notaðar af foreldrum og fagfólki í starfi með börnum. Bíldudalsskóli keypti allar bækurnar og munu þær nýtast í vinnu með börnum og foreldrum.
