top of page

Blár apríl

Alþjóðlegur dagur einhverfunnar er á næsta leiti og þriðjudaginn 4. apríl næstkomandi hvetjum við alla til að klæðast bláu og vekja þannig athygli á málefnum einhverfra barna en blái liturinn hefur fest sig í sessi sem litur einhverfunnar um heim allan. Líkt og undanfarin ár er það BLÁR APRÍL – Styrktarfélag barna með einhverfu, sem stendur fyrir deginum.

Markmið bláa dagsins er að vekja athygli á einhverfu og fá landsmenn alla til að sýna einhverfum stuðning sinn. Með aukinni vitund og þekkingu á einhverfu byggjum við upp samfélag sem er betur í stakk búið til að skilja þarfir einhverfra og virða framlag þeirra til samfélagsins.

FRÆÐSLUMYNDBAND

Blái dagurinn er liður í hinu árlega vitundar- og styrktarátaki BLÁR APRÍL. Allt styrktarfé sem safnast rennur óskert til málefnisins en í byrjun apríl í ár verður frumsýnt nýtt fræðslumyndband um einhverfu, en framleiðsla myndbandsins er einmitt afrakstur söfnunar síðasta árs. Það er von okkar að fræðsluefnið muni verða sýnt sem víðast í þeim tilgangi að fræða og upplýsa um einhverfu á jákvæðan og uppbyggilegan hátt. Einnig er gaman að segja frá því að félagið hefur að undanförnu einnig staðið fyrir námskeiðum fyrir aðstandendur einhverfra barna, sem var afar vel tekið. Í apríl opnar einnig heimasíðan www.blarapril.is og þar mun verða að finna fróðleik um einhverfu, einfalda flýtihnappa til að styrkja málefnið ásamt nýjustu fréttum úr starfi félagsins.

Hingað til hafa leik- og grunnskólar landsins haldið upp á bláa daginn með miklum glæsibrag og um leið staðið að fræðslu og umræðu um einhverfu innan veggja skólans. Það er einlæg von okkar að svo verði einnig í ár. Margir hafa brugðið á það ráð að setja myndir á instagram og facebook og merkja þær með myllumerkinu #blarapril sem hefur gætt daginn skemmtilegum blæ og hjálpað til við að breiða út þennan jákvæða boðskap.

Við hlökkum til að sjá ykkur sem flest í bláu þriðjudaginn 4. apríl. Stöndum saman og fögnum fjölbreytileikanum. Því lífið er blátt á mismunandi hátt! #blarapril

Endilega fylgist með á facebook síðu styrktarfélagsins: http://facebook.com/einhverfa

Nýlegar fréttir
Flokkun
Fylgdu okkur
  • Facebook Basic Square
  • Twitter Basic Square
  • Google+ Basic Square
bottom of page