top of page
REGLUR LEIKSKÓLANNA Í VESTURBYGGÐ

Reglur leikskólanna í Vesturbyggð

Október 2017

1.gr.

Leikskólarnir í Vesturbyggð eru ætlaðir börnum á aldrinum 14 mánaða til 6 ára. Sótt skal um leikskólavist með minnst 3ja mánaða fyrirvara.

Börnin hætta það ár sem þau verða 6 ára.

Opnunartími  Arakletts er frá kl. 07:45 til  kl. 17:15. Opnunartími Tjarnarbrekku er frá kl 07:45 til kl. 16:15.

2. gr.

Umsækjandi og barn skulu vera með lögheimili í Vesturbyggð.

3. gr.

Grunnvistun er frá kl. 08:00 til kl. 12:00  Boðið er upp á breytilega vistun umfram grunnvistunartíma.

4. gr.

Leikskólastjóri boðar foreldra nýrra barna til viðtals, þar sem hann veitir upplýsingar um starfsemina og þjónustu rekstraraðila og fær nauðsynlegar upplýsingar um barnið.

5. gr.

Leikskólagjald er ákveðið af bæjarstjórn á hverjum tíma.  Fæðisgjald skal greiðast um leið og leikskólagjaldið. Vistgjaldið greiðist frá þeim tíma að aðlögun hefst.

6. gr.

Leikskólagjöld eru greidd fyrirfram. Gjalddagi er fyrsta hvers mánaðar.  Eindagi er 15 dögum eftir gjalddaga, dráttarvextir reiknast frá eindaga.  Ef gjaldið hefur ekki verið greitt í 1 mánuð eða um það samið við leikskólastjóra eða bæjaryfirvöld er litið svo á, að viðkomandi hafi afsalað sér plássinu frá 1. næsta mánaðar og leikskólagjöld þá send lögfræðingi til innheimtu.

7. gr.

Gagnkvæmur uppsagnarfrestur leikskólanna og foreldra/forráðamanna er einn mánuður hið minnsta. Leikskólastjóra er heimilt að krefjast mánaðar greiðslu frá uppsagnardegi, hafi reglum um uppsagnarfrest ekki verið fylgt. Uppsögn skal skila á eyðublaði sem fæst hjá leikskólastjóra.

8. gr.

Veikt barn skal ekki koma í leikskólann. Tilkynna þarf veikindi barns og einnig, ef barn mun af öðrum orsökum ekki mæta í leikskólann. Ef barn er fjarverandi í minnst 4 vikur samfellt vegna veikinda er heimilt að gefa allt að helming dvalargjaldsins eftir gegn framvísun læknisvottorðs.

9. gr.

Barni er aðeins heimilt að dvelja í leikskólanum þann tíma sem dvalarsamningur kveður á um.  Foreldrar eru vinsamlegast beðnir um að virða þetta samningsákvæði.

10. gr.

Þeim, sem fylgja barni í leikskólann eða sækja, ber að láta viðkomandi starfsmann vita um komu sína og brottför. Látið ávallt vita, ef einhver annar en vanur er sækir barnið. Börn í leikskólanum skulu ekki sótt af yngri börnum en 12 ára.

11. gr.

Barn sem er að byrja í leikskólanum, skal fá aðlögunartíma með foreldri eða forráðamanni sínum til að fyrirbyggja, svo sem unnt er, röskun á öryggiskennd barnsins.

12. gr.

Morgunmatur hefst kl. 08:30. Foreldrar eða forráðamenn, sem eru með börn sín í morgunmat, þurfa að vera mætt með þau fyrir þann tíma.

13. gr.

Morgunmatur, hádegismatur og síðdegishressing er dregið af  fæðisgjaldi þegar barn er samfellt 10 daga í burtu sé þess óskað.

 

14. gr.

Um leið og bæjaryfirvöld fá upplýsingar um það, að viðkomandi foreldri er komið í sambúð, fellur niður afsláttur á gjaldi sem á við um einstætt foreldri.

 

15. gr.

Að jafnaði skulu vera 5 – 6 starfsdagar á ári og skulu þeir vera auglýstir með mánaðar fyrirvara.

16. gr.

Ef senda þarf börn heim vegna manneklu og veikinda starfsfólks er hringt í viðkomandi forleldra eða send skilaboð þar um. Ekki er gefinn afsláttur af gjaldi sökum þessa.

17. gr.

Börn raðast á biðlista eftir aldri, þau elstu fyrst, nema sérstakar aðstæður mæli með að barn verði í forgangi.

 

1. forgangur:

 • Fötluð börn og börn með alvarleg þroskafrávik.  Vottorð frá viðurkenndum greiningaraðila skal fylgja með umsókn. Börn starfsfólks leik- og grunnskólanna. Beiðni frá skólastjórum skal fylgja umsókn.

2. forgangur:

 • Börn sem búa við erfiðleika í félagsumhverfi og börn með þroskafrávik.  Erfiðleikar teljast t.d. barnaverndarmál, alvarleg veikindi eða fötlun hjá fjölskyldumeðlilmum barnsins. Vottorð frá lækni eða sérfræðingi skal fylgja umsókn.

 • Börn með foreldra undir lögaldri, börn einstæðra forráðamanna með fleiri en eitt barn á framfæri, þríburar.

Aðgerðir sem gripið er til áður en til þess kemur að senda börn heim vegna manneklu:

 1. Veikindaafleysing fer inn á deild eða  þar sem vantar starfsmann (8,33% af grunnmönnun í hverjum leikskóla)

 2. Undirbúningstímar færðir til t.d. – taka þegar rólegur tími gefst t.d. í útiveru

 3. Börn færð milli deilda

 4. Sérkennslustjóri tekur hóp eða kemur inn á deild eftir atvikum

 5. Hringt í foreldra og börn sótt

 6. Fyrirkomulag ef sækja þarf börnin:

 7. Hringt í foreldra þeirra barna sem eru í leikskólanum á þeim tíma sem starfsfólk    vantar

 8. Hringt í foreldra allra barna á þeirri deild sem þörfin er mest og foreldrar beðnir um að sækja börnin fyrr

 9. Ef um langvarandi veikindi og eða manneklu er að ræða þá þarf að fara kerfisbundið í skerðingu t.d. með því að skipta upp í hópa svo jafnræði ríki.

 

 

Vesturbyggð 17. október 2017

bottom of page