top of page
LESFERILL

Lesferill er heiti á nýju matstæki sem unnið er af læsisteymi Menntamálastofnunar í samstarfi við aðra sérfræðinga stofnunarinnar. Lesferli er ætlað að meta grunnþætti læsis, s.s. lesfimi, lesskilning, ritun, orðaforða og málskilning. Ætlunin er að Lesferill spanni tímabilið frá þriggja til sextán ára aldurs. Hafist var handa við að vinna þessi próf í október 2015 og ætlunin er að prófin verði öll tilbúin til notkunar haustið 2020. Ýmist er um stöðupróf eða skimanir að ræða.
   
Alls eru fimm próf tilbúin til notkunar, þar af eru fjögur sem snúa að umskráningu eða sjálfri lestrartækninni. Hér er um að ræða lesfimipróf, sem má segja að séu grunnprófin. Auk þeirra eru svonefnd hliðarpróf, sem meta þætti sem allir tengjast eða hafa áhrif á lestrartæknina. Hliðarprófin eru próf í sjónrænum orðaforða, próf í orðleysulestri og nefnuhraðapróf. Þessi próf eru öll stöðupróf þar sem staða nemandans er metin miðað við jafnaldra á landsvísu. Prófin taka mið af aðalnámskrá grunnskóla og fylgja þeim áherslum sem þar eru lagðar.​

Hvað er lesfimi?

Lesfimi er samsett færni sem felst í leshraða, lestrarnákvæmni, áherslum og hrynjandi í lestri. Fjölmargar rannsóknir sýna að sterk tengsl eru milli lesfimi og lesskilnings og með því að bæta lesfimi nemenda eflist lesskilningur jafnframt. 

Hvað eru lesfimiviðmið?

Lesfimiðviðmið eru sett þannig fram að þau sýna stíganda í færni nemenda frá einum bekk til annars. Þetta eru almenn viðmið fyrir nemendur í hverjum árgangi sem endurspegla þær kröfur sem þeir þurfa að mæta á næstu stigum náms. Lesfimi er mæld sem rétt lesin orð á mínútu. Lesfimiviðmið Menntamálastofnunar byggja á stöðlunarfyrirlögn lesfimiprófa sem náði til 5.500 nemenda. Mælieiningin orð á mínútu er að vissu marki háð stíl, innihaldi og orðfæri hvers texta. Ef aðrir próftextar en lesfimipróf Lesferils eru notaðir er því hætta á ákveðinni óvissu í niðurstöðum.

 

Maíviðmið fyrir lesfimipróf Lesferils – fjöldi rétt lesinna orða á mínútu


 

Fyrirlögn í Bíldudalsskóla og Tjarnarbrekku er að finna hér.

bottom of page